01.09.2011 - 13:55

Listasumar og Bláberjahátíđ

Olympíuliđiđ
Olympíuliđiđ
« 1 af 9 »

Það má segja að fjörið hafi dunað í Melrakkasetri í ágúst enda voru tónlistarviðburðir nánast um hverja helgi. Í júlí héldum við tónlistarveislu, í samstarfi við Ömmu Habbý, en þá spiluðu Eggert og Michelle Nielsson ásamt Skunda litla á loftinu hjá okkur. Seinna um kvöldið færðu menn sig niður á Ömmu Habbý og héldu áfram fram á nótt. Það var gaman að sjá fólk á ferli í bænum þessa hlýju júlínótt.
Hinn einstaki Svavar Knútur kom líka í júlí og spilaði á loftinu hjá okkur í heila kvöldstund. Var hrein unun að eiga þessa samverustund með þessum einlæga listamanni og mátti sjá tár á hvörmum gesta.

Í byrjun ágúst steig á stokk Skúli mennski, hið djúpraddaða söngvaskáld, með kaldhæðnislega texta úr daglega lífinu. Sjálfur Mugison hitaði upp fyrir drenginn og Rúna okkar Esra tók með honum nokkur lög, svona rétt til að hita upp fyrir menningarnóttina í Reykjavík þar sem parið sló í gegn á sviðinu.
Menningarnóttina héldum við upp á með hópi trúbadora sem hélt ólympíuleika á loftinu hjá okkur. Þeir lentu þó í hremmingum á leiðinni og voru nokkuð lerkaðir eftir bílveltu í næsta firði. Eggert „lifesaver" Nielsson sótti drengina á slysó og Fanney og Hjörleifur færðu þeim súpu og knús (sem í daglegu tali kallast snús). Arnar Guðmundsson og Eggert tóku lagið meðan menn voru að ná sér en svo var tekið til við gítarinn og haldnir ólympíuleikar.

Daniel, hinn syngjandi breti kom tvisvar við hjá okkur í ágúst, á ferðum sínum hringinn í kringum landið til styrktar Ljósinu og fleiri góðum málefnum. Hann langaði greinilega að dvelja lengur en söng í bæði skiptin fyrir súpu í annað skiptið og bláberjagraut með rjóma í seinna skiptið. Hægt er að fylgjast með ævintýrum Daniels á síðunni hans www.singaroundiceland.com.

Eins og allir vita er Bláberjadögum nýlokið og tókust þeir frábærlega. Melrakkasetrið lét sitt ekki eftir liggja var miðpunktur hátíðarinnar enda staðsett mitt á milli gömlu og nýju byggðarinnar og viðburðir fóru fram út um allan bæ. Menn hlupu, gengu á fjall, tíndu ber og sungu og skemmtu sér hver sem best gat.

Á föstudeginum komu gestir við í Melrakkasetri og fengu kort með berjatínslusvæðum. Skapaðist þar nokkur stemning enda margir brottfluttir mættir í bæinn til að taka þátt í hátíðinni, spjölluðu mikið og höfðu áhuga á endurbyggingarsögu Eyrardalsbæjarins.
Á föstudagskvöldið hófst svo formleg dagskrá þar sem boðið var upp á ókeypis tónlistarflutning fjórtán tónlistarhópa á þremur stöðum í bænum: á veitingastaðnum Jóni Indíafara, í Melrakkasetrinu og á Ömmu Habbý. Þeir listamenn sem spiluðu á loftinu hjá okkur voru Papa Mug, The Moody Orchestra, Arnar Guðmundsson, Trubador Denni, Perla Sig og Hljómsveitin YXNA með Papa Mug kláraði kvöldið. Fanney stóð vaktina með Ester um kvöldið og var mikil stemming. Gestir voru fluttir með Bláberjalestinni, sem Yordan Yordanov ók á milli staða og var þjónustan var vel þegin. Allir tónlistarmennirnir sem komu fram á tónleikunum á föstudaginn eiga sérstakar þakkir skilið fyrir ókeypis skemmtun.

Á laugardagsmorgun var farið á fjall, í berjamó eða hlaupið bláberjahlaup.
Eftir hádegi fór fram keppni í ýmsum óhefðbundnum greinum. Í Melrakkasetri var keppt í Bláberjabökuáti við mikinn fögnuð áhorfenda. Umsjón með keppninni hafði Michelle Nielsen en Gamla Bakaríið á Ísafirði gaf bökuna.
Einnig var keppt í Fyllukeppni og fengu þátttakendur tveggja lítra fötur til að fylla af berjum á sem skemmstum tíma. Baráttan um stærsta berið var hörð en mjótt var á munum meðal stærstu berja. Umsjón og dómgæsla var í höndum Kjartans Geirs Karlssonar (yngri). Á fótboltavellinum var svo keppt í Bláberja-spretthlaupi og Bláberjakasti. Umsjón með leikunum var í höndum Eggerts Nielsson.

Meðan á leikunum stóð fór fram kynningafundur um stofnun Berjasamlags í Melrakkasetri ásamt fræðandi erindum og kynningu á undrapottinum finnska sem muurikka.is flytur inn. Konráð Pálmason kom alla leið frá Ástralíu til að kynna hugmyndir um nýtingu og vöruþróun berja. Með honum voru bróðir hans Þorvaldur og félagar þeirra, þeir Sveinn Rúnar og Jón Trausti sem tók fullt af flottum myndum á hátíðinni.
Það var svaka mikið borðað af bláberjavöfflum og bláberjapæjum á laugardeginum og fór svo að lokum að rjómi og vöffluefni kláraðist. Þegar komið var á Ísafjörð seinnipart laugardags var þar allur rjómi búinn enda virðist sem sannkallað bláberja-rjóma-æði hafi gripið menn enda Bláberjadagar ..

Keppni í bláberjaréttum fór fram á laugardeginum og var það Dagbjört Hjaltadóttir sem bar sigur úr býtum með gómsæta Heilsu - Bláberjapæju. Pæja þessi fæst nú í Melrakkasetrinu enda er Dagbjört virkur félagi í baklandinu okkar. Dagga sá líka um markað sem var haldinn við samkomuhúsið.

Seinnipart laugardagsins var heilmikil dagskrá í Raggagarði. Þar voru kynnt úrslit í keppnum dagsins og verðlaun afhent. Dagskrá laugardagsins lauk svo með varðeldi, brekkusöng og dansleik í Samkomuhúsinu.

Á sunnudag var boðið upp á ókeypis bláberjapönnukökur í Melrakkasetrinu og stóð Eggert Nielsson við pönnuna meðan hann bakaði og spjallaði við gesti og þakkaði þeim fyrir frábæra helgi.

Nánar um Bláberjadaga á heimasíðu hátíðarinnar

 

Vefumsjón