12.05.2010 - 08:34

Líf og fjör í Álftafirđi

Mynd: Kristalmynd
Mynd: Kristalmynd
Í Álftafirði er mikið fuglalíf og gaman að fylgjast með kríum og lómum á Langeyri, skörfunum og fýlnum við Arnarneshamar og hinum eldhressu bæjarhröfnum. Á sjónum er mikið af æðarfugli og stundum fylgja þeim æðakóngar, þar má einnig sjá straumendur, toppendur, hávellur og teistur. Gráhegrar hafa haldið sig í Álftafirðinum slíðastliðið ár og er ekkert fararsnið á þeim. Á sjónum í botni Álftafjarðar sjást endur, álftir og gæsir og út um allan fjörðinn má sjá og heyra ýmsa vaðfugla svo sem stelka, sendlinga, tjalda, lóur, spóa, sandlóur og hrossagauka og alltaf er hægt að eiga von á fálka eða erni á sveimi. Ágæt silungsveiði er í ánni sem rennur úr Seljalandsdal, í botni Álftafjarðar en þar gildir Veiðikortið til afnota. Selir synda nálægt ströndinni og kíkja forvitnir á ferðamenn og stundum sést jafnvel í hrefnur nálægt landi, sérstaklega síðsumars og á haustin.

Sjóstangaveiði er gerð út frá Súðavík og er gaman að fylgjast með áhugaveiðimönnum landa afla sínum við höfnina.

Raggagarður er fjölskyldugarður í Súðavík og staðsettur í „gömlu byggðinni" en mitt á milli Melrakkaseturs og Raggagarðs er afbragðs tjaldstæði með öllum nútímabúnaði fyrir húsbíla og tjaldvagna, sturtum, salernisaðstöðu og þvottavél. Nokkrir aðilar leigja út hús í gömlu byggðinni í Súðavík og getur fjölskyldufólk sameinast um eitt hús í heila viku og haft aðsetur þar og skoðað sig um norðanverða Vestfirði. Það ætti því ekki að væsa um þá sem ákveða að dvelja í Súðavík í sumar og enginn þarf að láta sér leiðast.
Melrakkasetrið opnar 12. júní og verður sýningin opin daglega frá 10-18 en kaffihúsið er opið frá 10-22 út ágúst. Boðið verður upp á heimalagað kaffi og nýtt bakkelsi en á kaffihúsinu er einnig opinn interntetaðgangur og svalandi drykkir.  Ýmsar uppákomur eru í bígerð og verða þær auglýstar þegar þar að kemur, við munum einnig láta vita af viðburðum í Raggagarði og annars staðar í bænum. Fylgist með á dagatalinu okkar hér á síðunni.
Vefumsjón