03.07.2009 - 16:13

Komin úr annari ferđinni í Hornvík

Ein af spöku tófunum í Hornvík
Ein af spöku tófunum í Hornvík
« 1 af 2 »
Síðastliðna viku dvaldi Ester Rut með tökuliði frá Frakklandi og Þýskalandi í Hornvík. Marie-Helene Baconnet er að vinna að heimildarþætti um tófuna og áhrif loftlagsbreytinga á lífshætti tegundarinnar, á Íslandi, í N-Noregi og í Kanada. 
Hér fyrir vestan lifa tófur mest á fugli og eggjum á grenjatíma en annars eru þær alætur og éta mikið af skordýrum (aðallega lirfur), berjum og hræjum sem þær rekast á. Á öðrum tökusvæðum myndarinnar lifa tófur á læmingjum fyrst og fremst en snúa sér að öðru þegar læmingjar eru í lágmarki. Breytingar á loftslagi með hlýnun og óstöðugu veðurfari gætu haft áhrif á fæðuframboð á öllum þessum svæðum og er þess virði að fylgjast með öllum breytingum í lífsháttum þessa dýrs sem hefur sérhæft sig í að lifa af sult og fimbulkulda heimskautavetrarins.
Tökur gengu vel í Hornvík enda hafa tófurnar þar góða reynslu af ferðamönnum og taka þátt í kvikmyndavinnunni eins og sannar stjörnur. Franski leiðangurinn hafði einnig dvalið í Vigur og fylgst með æðavarpinu þar og lundabyggðinni og eru nú í Dýrafírði með Valdimari Gíslasyni og Kidda Valda frá Flateyri, að fylgjast með því hvernig æðavarp er varið fyrir tófugangi.
Það er áhugavert að fylgjast með hvernig heimilarmyndir eru unnar og þessi mun vonandi verða góð kynning fyrir Vestfirði og hið fábreytta en áhugaverða dýralíf sem þeir hafa upp á að bjóða.
 
Vefumsjón