28.05.2013 - 09:05

Júní í Melrakkasetri

Í maí hefur verið opið frá 10-17 alla daga og hafa gestir okkar notið þess að fá rjúkandi heita súpu og nýbakað brauð upp á hvern dag. Alltaf er að fjölga í gestahópnum og margar þjóðir nú þegar átt fulltrúa í Melrakkasetrinu.

Eins og áður hefst sumaropnun Melrakkasetursins laugardaginn 1. júní en frá og með þeim degi er opið frá kl. 9 til 22 alla daga.


Á Rebbakaffi er boðið upp á morgunverðarhlaðborð, súpu í hádeginu og plokkfisk. Áfram verða rebbavöfflurnar okkar, hjónabandsælan og súkkulaðikaka ásamt spennandi nýjungum.


Upplýsingaveita fyrir ferðaþjóna í Súðavíkurhreppi verður starfrækt í Melrakkasetrinu í sumar. Þar fást upplýsingar um gistimöguleika, veitingar og afþreyingu í hreppnum auk annara nauðsynlegra upplýsinga sem ferðamenn þurfa á að halda til að njóta ferðarinnar sem best. Allir ferðaþjónar sem eru á skrá hjá Ferðamálastofu geta skráð þjónustu sína hjá okkur. Síminn er 456 4922 og netfangið er info[@]melrakki.is


Laugardaginn 9. júní verður þriggja ára afmælishátíð Melrakkasetursins og hefst dagskráin kl. 13. Að venju verður opið á sýninguna, veitingar og tónlistaratriði. Verið er að stækka útiaðstöðuna svo það ætti að fara vel um mannskapinn í góða veðrinu á pallinum.


Nú er nýliðun í starfsmannahópi Melrakkasetursins og einum starfsmanni fleira en í fyrra. Sumarstarfsmenn í ár eru þau Rúna Esradóttir, Genka Yordanova, Jónas Gunnlaugson, Snorri Jónsson, Þórir Garibaldi Halldórsson. Við bjóðum melrakka sumarsins velkomna. Ester Rut er forstöðumaður eins og áður og verður hún að mestu í rannsóknarverkefnum en auðvitað líka í Eyrardal að hitta gestina :-)


Ferðaþjónum í hreppnum og helstu samstarfsaðilum á Ísafirði hefur verið boðið á súpufund sem haldinn er þriðjudaginn 28. maí kl. 19.

Miðvikudaginn 29. maí kl. 20 er svo veiðimönnum á Vestfjarðakjálka boðið í heimsókn en fyrr í vetur voru veiðimenn í Skotreyn heimsóttir. Forstöðumanninum finnst svo gaman að tala um refi og þarna er hópur sem svo sannarlega nennir að spjalla um málefni refa tímunum saman :-)


Þann 11. júní verður farið í "afmælisferð" til Hlöðuvíkur með fjölskyldu Páls heitins Hersteinssonar en 15 ár eru frá því Páll Hersteinsson, Hólmfríður Sigþórsdóttir, Ester Rut og Þorleifur Eiríksson fóru norður til refarannsókna. Einnig komu við sögu í þeim ferðum Þorvaldur Björnsson, Eiríkur Gíslason og Anna Heiða Ólafsdóttir en Guðmundur Jakobsson og Reimar Vilmundarson sigldu með mannskap og farangur sumurin 1998 og 1999. Sjálfur Jón "Rebbi" Oddsson var líka með í ferð. Þessum tímamótum verður fagnað og hafa húsráðendur í Hlöðuvík veitt góðfúslegt leyfi til dvalar þar. Indriði draugur Hlöðuvíkur verður örugglega sáttur og sér okkur fyrir góðu veðri til fararinnar. Sagt er frá þessum ferðum í bókinni Refirnir á Hornströndum en hún er til sölu í Melrakkasetrinu og Vestfirsku Versluninni.


Strax í kjölfar Hlöðuvíkurferðar verður haldið til Hornvíkur með sjálfboðaliða í fyrstu rannsóknarferð sumarsins. Svo taka við nokkrar refaskoðunarferðir og frekari rannsóknarferðir. Samstarfsaðilar okkar í ferðum og rannsóknum eru Náttúrustofa Vestfjarða, Borea Adventures og Vesturferðir. Saman erum við í The Wild North og munu gæðaboðorð okkar verða prófuð á gestum og ferðaþjónum í sumar.


Von er á fjölda fólks í heimsókn, bæði sjálfboðaliðum og öðrum gestum. Það verður semsé nóg að gera hjá melrökkum báum megin Ísafjarðardjúps í allt sumar. Fylgist með fréttum á síðunni og Facebook


Velkomin í Melrakkasetrið

Vefumsjón