26.06.2010 - 18:39

Hornvík í júní

Mórauđ tófa á Hornströndum. Mynd: Abby Sullivan
Mórauđ tófa á Hornströndum. Mynd: Abby Sullivan
Nú er lokið fyrstu rannsóknarvikunni okkar í Hornvík þetta árið en þetta er þriðja árið sem við förum á svæðið til að meta viðbrögð refa við aukinni umferð ferðamanna um óðul þeirra og í nágrenni við greni. Þetta er okkar hlutverk innan samnorræna verkefnisins „Hið Villta Norður" (www.thewildnorth.org).
Abby Sullivan, nemandi við Háskólasetur Vestfjarða, fylgdist með ferðamönnum og refum í 8 klst á dag í 5 daga frá 19. - 23. Júní og Jean Larson vaktaði greni til að skoða samskipti yrðlinga og foreldra.
Einnig voru með í för þeir Tobias Mennle og Frank Drygala en þeir hafa áður komið og kvikmyndað refi með okkur. Þeir dvelja í Hornvík til að mynda fjölskyldulíf refanna okkar en myndin þeirra mun fjalla um heilt ár í lífi refafjölskyldu á Íslandi ásamt eldgosum og fleiri náttúrufyrirbærum. Myndin verður hluti af norrænni náttúrulífsseríu en hinar myndirnar eru kollegar þeirra að undirbúa í Svíþjóð, Noregi og Grænlandi.
Í þetta sinn var einnig með í ferð Leslie Chan frá Hong kong en hann hefur verið að ferðast um heiminn undanfarin 3 ár til að ljósmynda dýr fyrir bók sem fjallar um öll þau dýr í heiminum sem geta kallast einkennisdýr á hverju svæði. Leslie var hér á vegum ferðaskrifstofunnar Gavia Travel.
Ester fór með fólkinu og fór auk þess á öll þekkt greni til að kanna hlutfall í ábúð og safna gögnum fyrir Melrakkasetrið og Náttúrustofu Vestfjarða. Ástand dýranna á svæðinu var svipað og áður, um helmingur dýranna virðist vilja leika við ferðamenn en hin dýrin eru feimnari og haga sér líkara því sem refir gera þar sem skotveiðar eru stundaðar.
Vefumsjón