17.08.2009 - 09:18

Hornvík í ágúst - síđasta vikan

Spök tófa spjallar viđ ferđamann í Hornvík í júlí
Spök tófa spjallar viđ ferđamann í Hornvík í júlí
Síðasta vikan í rannsókninni „Áhrif ferðamanna á refi" fór fram í Hornvík nú í ágúst. Er þá lokið öðru sumrinu í rannsókninni sem áætlað var að tæki 3 ár en í fyrra var undirbúningsrannsókn til að finna leiðir til að meta áhrifin.
Greinilegur munur var á atferli dýranna í júní, júlí og ágúst en nú eru yrðlingarnir orðnir nokkuð stálpaðir og ekki eins háðir foreldrum sínum eins og áður. Erfiðara er að staðsetja dýrin þar sem þau halda sig á ólíklegustu stöðum innan óðals foreldranna. Yrðlingarnir eru varir um sig en foreldrarnir haga sér svipað og áður þó þau komi minna að greninu sjálfu.

Óðalið er ennþá varið og fara fullorðnu um það á hverjum degi til að þvagmerkja landamærin. Það er mikilvægt fyrir dýrin að halda sínu svæði sem lengst frameftir vetri því eitthvað hljóta þau að hafa haldið til haga af eggjum og hræjum til að eiga til góða seinna. Ströndin skiptir miklu máli í vetur og hafa öll pörin í Hornbjargi aðgang að einhverri strandlengju. Þangað rekur dauða seli, fiska og fugla auk þess sem þangflugulirfur og ýmislegt annað góðgæti er þar að finna.

Refirnir á Hornströndum fara í berjamó síðsumars eins og aðrir íslendingar og það verður stundum þröngt á þingi þegar 15 hrafnar og tófufjölskylda koma saman til að tína ber. Berin eru frábær orkugjafi og skipta miklu máli fyrir melrakkana til að safna fituforða fyrir veturinn.

Vefumsjón