09.09.2010 - 15:28

Herráðsfundur

Herráðsfundur: Jón Gíslason, Kiddi Valdi, Valdimar, Zófonías
Herráðsfundur: Jón Gíslason, Kiddi Valdi, Valdimar, Zófonías
Fundur í svokölluðu Herráði fór fram í Herráðsstofunni í Melrakkasetrinu á dögunum. Mættir voru 4 aðalmenn og var þeim tekið fagnandi. Herráðið eru samtök veiðimanna sem verja æðavörp í Dýrafirði og hafa þeir haldið myndarlega utan um félagsskapinn í áratugi. Kalla þeir umráðasvæði sín "hersóknir" og skotsvæðin "vígsstöðvar". Um starfsemi félagsskaparins gilda strangar reglur sem tengjast meðal annars veiðum og skáldskap. Herráðsstofan í Melrakkasetrinu dregur nafn sitt af þessum félagsskap en þar má lesa um herráðið ásamt öðrum veiðimönnum sem urðu frægir á sínum tíma, blaðagreinar, útvarpsviðtal við Theodór Gunnlaugsson, merkar bækur og fleira í þeim dúr.

Herráðsforinginn er sagnfræðingurinn Valdimar Gíslason frá Mýrum. Félagar hans sem mættu á fundinn eru þeir Jón Gíslason (bróðir Valdimars), Zófonías Þorvaldsson frá Læk (prótókollmeistari) og Kristján Rögnvaldur Einarsson (Kiddi Valdi) frá Flateyri. Þeir eru allir hver öðrum hagmæltari og flutti hver sitt kvæði á fundinum. Kveðskapurinn var svo allur ritrýndur og borinn undir ráðið áður en ákveðið var hvort fært skyldi til bókar (sjá dæmi hér f. neðan). Kvæðin er hægt að skoða í Melrakkasetrinu í næstu heimsókn.

Dagskrá fundarins var meðal annars að færa Melrakkasetrinu afrit af heiðursskírteinum eða diplomum sem aðeins tveir aðilar hafa hlotið, þeir Össur Torfason og áðurnefndur Kiddi Valdi. Samkvæmt þessum skjölum hafa þeir verið útnefndir með hæstu gráðu herráðsins og bera því héðan í frá tignarheitið Gran Comandante Dr. Honourus Causus Skolliales. Á diploma skjölunum eru svo drápur frá félögum ráðsins sem fæstir hafa fengið svo háa gráðu og eru því aðeins titlaðir Gran Commandante. Einnig eru á skjölunum nokkur skotgöt og er beðist velvirðingar á þeim.

Annar dagskrárliður var að gera forkönnun og athuga aðstöðuna vegna fyrirhugaðs erindis sem herráðsforinginn hyggst flytja hér í Melrakkasetrinu í haust. Þar verður sagt frá herráðinu og nokkrum stórræðum sem þeir félagar hafa staðið í á vígvellinum. Sumir refir hafa reynst þeim erfiðara viðfangsefni en aðrir og er þá Kusi þeirra frægastur. Sagt verður frá viðureigninni við Kusa, sem var víst á stærð við kálf og tók marga menn tvö ár að fella. Það verður æsispennandi að hlýða á erindi Valdimars en það verður flutt á sunnudagseftirmiðdegi í haust og auglýst sérstaklega.

Hjá herráðinu tíðkast að færa bókhald í bundnu máli og er fundargerð rituð í gestabókina í nokkrum erindum, frá hverjum og einum fundamanni. Meðal annars þessi tvö erindi frá Valdimari:

 

Í halarófu á herráðsfund
héldu sprækir kallar
Gestrisnin hér gladdi lund
góðu sumri hallar

 

 


Í húsi þar sem bóndi bjó
byggt var fræðasetur
Um dýrið sem að dældir smó
hér djrúgum lært þú getur

 

Vefumsjón