09.08.2010 - 15:11

Hefur ţú séđ merkta tófu?

« 1 af 3 »
Á árunum 2003-2007 fór fram fjölþjóðleg rannsókn á refum í Hornvík. Það var dr. Eli Geffen frá Háskólanum í Tel Aviv sem stýrði rannsókninni en samstarfsaðilar voru dr. Miki Cam frá sama háskóla, dr. Anders Angerbjörn prófessor við Stokkhólmsháskóla, dr. Eva Fuglei frá Norsk Polar Institutt í Noregi, dr. Þorleifur Eiríksson frá Náttúrustofu Vestfjarða og dr. Páll Hersteinsson prófessor við Háskóla Íslands. Rannsóknin gekk m.a. út á að meta framlag foreldra við umönnun yrðlinga og var gerður samanburður á grendýrum og gelddýrum hvað varðar efnaskipti og orkuþörf, stærð óðala og annað slíkt. Á þessum árum voru nokkur dýr veidd og sett á þau senditæki til að hægt væri að fylgjast með ferðum þeirra. Þau dýr sem náðust voru einnig eyrnamerkt, ýmist sem fullorðin dýr og yrðlingar.

Enn eru nokkur þessara dýra á friðlandinu og höfum við fengið nokkrar tilkynningar og myndir af merktum dýrum. Meðal annars þessar sem fylgja með fréttinni, teknar 31. júlí og 1. ágúst af Elmu Rún Benediktsdóttur. Þetta er mórauður steggur sem var merktur sem fullorðið dýr í Hornvík vorið 2007 og er því að minnsta kosti 4 ára.

Það væri gaman að fá fleiri myndir af merktum dýrum ásamt upplýsingum um staðsetningu og tíma. Myndir og upplýsingar hjálpa okkur að fá einhverja mynd af ástandi og afkomu dýranna á svæðinu. Þeir sem eiga myndir og vilja taka þátt í þessu með okkur eru beðnir um að senda þær til Náttúrustofu Vestfjarða (nave@nave.is) og/eða Melrakkaseturs Íslands (melrakki@melrakki.is). Endilega látið nafns ykkar getið ásamt upplýsingum um hvar og hvenær myndin var tekin.
Annars er alltaf gaman að fá myndir af íslenskum refum, endilega sendið okkur myndir og takið þátt í að safna í stærsta vefmynda-albúmið sem tileinkað er tófunni - sendið myndina merkta ykkur á melrakki@melrakki.is
Vefumsjón