01.10.2012 - 15:41

Hauskúpa - vansköpun

« 1 af 2 »
Okkur barst á dögunum athyglisverð hauskúpa af melrakka sem fannst í Leirufirði í júní á síðastliðnu sumri, sjá meðfylgjandi myndir.
Hauskúpan er greinilega vansköpuð að framanverðu því trýnið er mjög stutt miðað við það sem eðlilegt getur talist og stendur neðri kjálkinn næstum sentimeter framundan þeim efri. Neðri kjálkinn er þó eðlilegur en frekar stuttur og allar tennur eru til staðar, bæði í efri og neðri gómi. Bitið er skakkt, vinstri vígtönn er illa þroskuð og „hrukkótt" en hinar í lagi.

Við gerðum nokkrar staðlaðar mælingar en ekki þurfti að fjarlægja vígtönn til aldursgreiningar. Dýrið var greinilega ungt, líklega hefur það drepist á fyrsta vetri. Fullorðinstennur eru komnar upp en vígtennur með stóru holrými og „saumar" eða samskeyti í hauskúpunni ekki alveg fastgróin.

Áverki er aftan á hnakka dýrsins hægra megin sem gæti útskýrt dánarorsök þess. Líklega hefur dýrið orðið fyrir höggi, dottið eða orðið fyrir grjóthruni eða eitthvað slíkt. Með slíka vansköpun í skolti er þó ekki víst að þetta dýr hefði orðið langlíft hvort eð er.

Finnandi hauskúpunnar er Sigurður Stephensen og við þökkum honum fyrir sendinguna.
Vefumsjón