30.06.2012 - 21:01

Harmonikkutónar - Rabbabari - Brúđuleikhús - Vatnslitamyndir - Handverk

BMW - miklir kappar
BMW - miklir kappar
« 1 af 5 »
Það er aldeilis búið að vera viðburðarríkt í Melrakkasetrinu undanfarið.

Þeir kappar í BMW (BG, Magnús og Villi Valli) fóru á kostum með harmonikkuspili á föstudagskvöldið og Mikki og melrakkarnir komu í Brúðuleikhúsið á laugardag. Í Rebbakaffi er verið að sjóða glænýja rebbabarasultu og eru það sjálfboðaliðarnir Laurie og Francis frá Qébec sem tíndu og skáru niður rabbabarann. Þau hafa líka tekið til hendinni í garðinum og hugsa vel um yrðlingana okkar, þau Móra og Mjallhvíti.

Jason frá Bretlandi og Ester skruppu í Hornvík til að kíkja á refina og var þar allt á fullu hjá flestum pörum við að færa mat heim á greni handa ört vaxandi yrðlingum. Farið var með hóp í refaskoðunarferð á vegum Vesturferða en slíkar ferðir eru liður í prófun á viðmiðunarreglum The Wild North.

Ekki er gott í búi hjá öllum tófum á Hornströndum og er þar ein læða að strögla við að koma upp afkvæmum sínum, án maka og óðals. Er skemmst frá því að segja að greyið hefur misst fjóra af fimm yrðlingum og er stöðugt rekin í burtu af nágrönnum sínum enda búin að tapa óðalinu og með vonbiðil á eftir sér sem vill helst losna við afkvæminvo hún sé tilkippilegri við hann og hraustari þegar þar að kemur. Tófur parast aðeins í mars svo hann þarf að bíða en því miður er hann ólíklegur til að hjálpa til við uppeldi á afkvæmum sem hann á ekkert í. Svona er nú harkan úti í henni náttúru. Jón Örn frá Háskóla Íslands kom með ásamt Konráð kvikmyndatökumanni en verið er að vinna að gerð heimildarþátta um störf háskólafólks við rannsóknir í náttúru Íslands. Þátturinn verður sýndur í sjónvarpinu næsta vetur og við hlökkum til að sjá hann.

Nú hefur bæst við listasýninguna okkar á Rebbakaffi en akrílmyndir Maríu Guðbjarnardóttur af litríku þjóðbúningakonunum hafa vakið mikla lukku. Guðrún Ingibjartsdóttir hefur sett upp sýningu á vatnslitamyndum af refum og þær myndir eru með því flottara sem við höfum séð af melrakkaverkum. Allar myndirnar á sýningunum þeirra Guðrúnar og Maríu eru til sýnis og sölu hjá okkur í sumar. Brátt fáum við svo að sjá aftur frímerkjasýningu Helga Jónssonar en hann hefur hlotið mikið lof fyrir einstakt safn sitt.

Á sunnudag er handverks og listamarkaður á loftinu og kennir þar margra grasa. María og Sveinbjörn verða þar með tildrur og vita, ísbjörnin Ísak og fleira fallegt. Pétur, sem fæddist í rauða húsinu á Langeyri mun kynna nýútkomna ljóðabók og lengi er von á fleirum á loftið. Hægt er að fá andlitsmálningu og svo er auðvitað snoðdýrið á rebbasýningunnii, ásamt loðnari félögum sínum.

Það ætti því ekki neinum að leiðast sem koma í heimsókn í Melrakkasetrið - það er alltaf kaffi á könnunni og sól á pallinum
hjá okkur

Sjáumst - melrakkarnir

 

Vefumsjón