25.07.2014 - 09:51

Gott sumar í Melrakkasetrinu


Fram til þessa hefur sumarið gengið mjög vel á Melrakkasetrinu. Mikil og góð umferð ferðafólks var í Súðavík í júní og hafa heimsóknir í Melrakkasetrið aldrei verið fleiri í einum mánuði síðan það var opnað í júní 2010. Það sem af er júlí mánuði hefur einnig gengið mjög vel og talsverð aukning í komu ferðamanna á milli ára.Er hér bæði um fjölgun gesta frá skemmtiferðaskipum sem koma í ferð um Álftafjörð og ekki síður hefur orðið mikil fjölgun á ferðafólki sem ferðast á eigin vegum. Margir koma við á leið sinni í gegnum Súðavík en aðrir koma gagngert vestur á firði til að heimsækja Melrakkasetrið og fræðast um melrakkann.

 

Í sumar hefur verið farið í tvær rannsónaferðir á Hornstrandir. Hin fyrri var farin um miðjan júní og dvalið í tvær vikur í Hornvík og Hlöðuvík. Fyrri vikuna var dvalið í Hornvík og ábúð óðala sem og frjósemi og ásigkomulag refa könnuð. Einnig voru þar vöktuð þrjú greni og fylgjast með viðbrögðum dýranna, sem þar búa, við áreiti ferðamanna.

Seinni vikuna var dvalið í Hlöðuvík og ábúð á óðölum í Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík könnuð sem og frjósemi dýra sem þar fundust. Allt töku 8 manns þátt í ferðinni, tveir starfsmenn Melrakkasetursins og 6 sjálfboðaliðar.

Seinni ferðin var farin fyrrihlutan í júlí og stóð yfir í eina viku. Dvalið var í Hornvík og sömu greni vöktuð og í júní ferðinni og fylgst með hvort atferli dýranna væri annað þegar ferðamannastraumur væri orðinn meiri. Alls tóku fimm manns í ferðinni, einn starfsmaður Melrakkasetursins og fjórir sjálfboðaliðar.

Hér má sjá nánari upplýsingar um rannsóknaferðina í júní.

 

 

Vefumsjón