08.05.2014 - 13:56

Glešilegt sumar

Komiš aš Horni
Komiš aš Horni
« 1 af 7 »

Melrakkasetrið óskar öllum velunnurum sínum gleðilegs sumar og þakkar fyrir veturinn.

 

Opnunartími Melrakkasetursins hefur nú verið lengdur. Í maí verður opið hjá okkur frá kl. 10:00 til 17:00 alla daga vikunnar. Boðið er upp á súpu og brauð í hádeginu og með kaffinu heimabakaðar kökur og vöfflur.

 

Í vetur hafa starfsmenn Melrakkasetursins sinnt ýmsum verkefnum auk hefðbundinna starfa í setrinu sjálfu. Meðal þeirra verkefna eru magakrufningar og skipulagning kvikmynda- og ljósmyndaferða til Hornvíkur.

 

Hornvíkurferðir

Tvær rannsókna-, kvikmynda- og ljósmyndaferðir voru farnar að Horni í Hornvík í mars.

Sú fyrri var með starfsmönnum frá kvikmyndaframleiðslufyrirtækinu Ljósopi, sem vinna að gerð kvikmyndar um heimskautarefinn. Á heimasíðu Ljósops kemur fram að hugmyndin sé að framleiða ljóðræna og sanna kvikmynd um lífsferil heimskautarefsins. Myndin verði saga um kraftaverk, líf refafjölskyldu og örlög hennar í harðbýlu landi.

Í seinni ferðinni var ástralskur ljósmyndari Joshua Holko og kvikmyndatökumenn frá BBC Nature sem vinna að heimildarmynd um refinn og eru væntanlegir aftur til Hornvíkur í byrjun sumars.

Sáu starfsmenn Melrakkasetursins um allan undirbúning fyrir ferðirnar og Ester Rut sá um leiðsögn í báðum ferðunum auk þess að stunda þar rannsóknir. Er þetta í fyrsta skipti sem starfsmaður Melrakkasetursins kemst norður í Hornvík til að fylgjast með atferli og háttum melrakkans á þessum tíma árs. Fengu ferðalangarnir öll þau veðrabrigði sem Ísland hefur upp á að bjóða á þessum árstíma.

 

Rannsóknir

Síðasta árið hafa starfsmenn Melrakkasetursins unnið að rannsókninni; Hvað eru refirnir að éta? – fæða íslenska melrakkans að vetrarlagi. Fram til þessa hefur aðallega verið unnið að því að safna mögum til krufningar. Nú í apríl var hafist handa við krufningarnar og er strax ljóst að í mögum melrakkans kennir ýmissa grasa. Í haust, eftir að 100 magar hafa verið krufðir, er vonast til að hægt verði að birta niðurstöðu rannsóknarinnar.

 

Unnið hefur veið að undirbúningi tveggja rannsókn er unnið verður að í sumar.

Þetta eru rannsóknir um

  •      Mat á þéttleika óðala og vöktun í friðlandinu á Hornströndum
  •      Þróun og uppbygging sjálfbærrar náttúrulífstengdrar ferðaþjónustu

 

Undirbúningur fyrir komandi sumarvertíð er nú í fullum gangi. Ferðamannafjöldinn sem heimsækir Melrakkasetrið dag hvern er nú þegar farinn að aukast og lofa fyrstu dagar maí mánaðar góðu fyrir komandi sumar.

Vefumsjón