03.01.2013 - 16:52

Gleđilegt nýtt ár !!

« 1 af 2 »
Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir hið viðburðarríka ár 2012 - annáll um starfið verður settur á síðuna á helginni. Af nógu er að taka enda var heilmikið og fjölbreytt starf í Melrakkasetrinu á síðastliðnu ári.

Okkur þykir 2013 vera góð tala og gerum að sjálfsögðu ráð fyrir að nú sé að renna upp „ár melrakkans". Veturinn er nú hálfnaður og ætlar að sýna melrökkum landsins í tvo heimana. boðið er upp á grimmdarfrost, snjóstorma, hörkubylji og heilu fjöllin af fannfergi. Þess á milli hlánar með blota og slabbi sem allt frýs síðan fast áður en varir. Aðeins hörðustu tófur ná að þreyja þorrann og góuna og þannig verður stofninn sterkur og hraustur þegar vetri lýkur.

Við í Melrakkasetrinu höfum í nógu að snúast meðan skjólstæðingar okkar þurfa að ströggla til að lifa af. Við erum að undirbúa starfið á þessu nýja ári og erum bara nokkuð spennt. Hér stendur til að halda viðburði á sviði tónlistar, menningar og magamáls og verða þeir fyrstu auglýstir bráðlega. Við höfum annars opið samkvæmt samkomulagi og þegar kuldinn svermir að þá er afar gott að kíkja inn í heitt súkkulaði og spjall. Eins og áður er líka hægt að fá húsið lánað fyrir ýmsar uppákomur, við erum til í flest. Bara hafa samband í síma 456 4922 og leggja inn hugmyndir, það er ekki verið að trufla neinn, við erum alltaf til í allt.

Á páskum verður svo boðið upp á hina margrómuðu páskaeggjaleit, páskakaffi og handverksmarkað auk þess sem listamenn troða uppi með verk sín.

Sumarstarfið verður með hefðbundnum hætti og hefst með risaskemmtilegri afmælisveislu í byrjun júní. Við förum í rannsóknarleiðangra og refaskoðunarferðir og fáum fullt af sjálfboðaliðum og vonandi nokkra nemendur sem vinna í sínum verkefnum. Í lok sumars verður svo haldin hátíðin Bláberjadagar en þar er Melrakkasetrið miðpunktur skemmtilegra uppákoma frá föstudegi og fram á sunnudag. Allt sumarið munum við iða af kæti og frábærum skemmtilegheitum, eins og alltaf.

Melrakkasetrið leggur sitt af mörkum í þágu náttúrufræðanna og nú er nýlokið vetrarfuglatalningu 2012. Okkar fulltrúar töldu í Súðavík og að Dvergasteinseyri en í ár var ekki talið á Súðavíkurhlíð, af augljósum ástæðum. Það voru þau Ester Rut og Jón Ragnarsson sem töldu fyrir hönd þessa svæðis. Niðurstöðurnar verða síðan settar í gagnabanka Náttúrufræðistofnunar ásamt upplýsingum frá öðrum svæðum á landinu. Vestfirðirnir eru í umsjá Náttúrustofu Vestfjarða og við erum stolt af því að taka þátt í talningunni fyrir hönd okkar svæðis. 

Vefumsjón