10.01.2009 - 13:01

Fuglaskošun į Ķslandi - wildlife tourism

móraušur yršlingur kķkir į feršamann - Ljósmynd: ERU
móraušur yršlingur kķkir į feršamann - Ljósmynd: ERU
Melrakkasetrið tók á dögunum þátt í málfundi um fuglaskoðun á Íslandi sem haldið var á vegum Útflutningsráðs. Þrátt fyrir að setrið gefi sig ekki út fyrir fuglaskoðun, er málið okkur skylt þar sem margir sem ferðast til að skoða fuglalíf, hafa einnig áhuga á öðru villtu dýralífi.

Fluttir voru áhugaverðir fyrirlestrar og kom fram að um er að ræða yfir þrjár milljónir manna sem eru tilbúnir til að ferðast um langan veg til að sjá fuglategundir sem finnast ekki í þeirra nærumhverfi. Hér eru aðeins taldir þeir sem eru skráðir í fuglaskoðunarfélög í Bretlandi og Bandaríkjunum en talið er að allt að 70 milljónir manna ferðist um heiminn í þesum tilgangi.

Ísland liggur mitt á milli þessara markaða og er auðvelt og ódýrt að komast hingað í þessum erindagjörðum. Þrátt fyrir að við séum svona vel staðsett, kemur aðeins örlítið brot þessa fólks hingað til lands. Connie Lovel, sérfræðingur í "wildlife tourism" og fuglaskoðari, telur að það væri vel hægt að vinna þennan markað enda höfum við upp á margt að bjóða.

Sem sérlegir áhugamenn um að markaðssetja íslensku tófuna, sjáum við hjá Melrakkasetrinu mikil tækifæri í að taka þátt með fuglaferðaþjónum enda tófan og fuglalífið tengt órjúfanlegum böndum hér á landi og eitt af því fáa sem kalla má náttúrulegt í dýralífi á Íslandi.

Hvergi annars staðar er eins auðvelt og ódýrt að sýna ferðamönnum hinn fágæta heimskautaref í náttúrulegu umhverfi sínu. Stórbrotin náttúra landsins og gríðarstór fuglabjörgin eru glæsilegur bakgrunnur fyrir dýralífsljósmyndara og upplifunin er sterk.

Þegar hefur verið haft samband við Melrakkasetrið vegna refaskoðunarferða næsta sumar og við höfum fengið beiðni frá ljósmyndurum um ráðgjöf vegna vetrarljósmyndunar. Þar væri náttúrulega langbest að spjalla við reynda veiðimenn sem þekkja til ferða lágfótu og vita kannski um falleg dýr sem halda sig í umhverfi sem gæti verið glæsilegur bakgrunnur að fallegum vetrarmyndum af íslenskum tófum.

Framundan er að hanna og framleiða bækling og halda námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila sem vilja upplýsa og fræða viðskiptavini sína um þetta sérstæða dýr sem þeir sjá á ferðum sínum og vekur ávallt athygli ferðamanna.

 

Hér er frétt um fundinn og erindin sem flutt voru - af vefsíðu útflutningsráðs:

http://icetrade.is/Frettir/834/default.aspx

Vefumsjón