24.08.2011 - 11:40

Bláberjadagar 26. - 28. ágúst !!

Helgina 26. - 28. ágúst ætla súðvíkingar að halda uppskeruhátíðina Bláberjadagar

Bláberjadagar eru engin venjuleg bæjarhátíð þó svo að bæjarbúar muni klárlega skemmta sér vel saman. Þemað  eru bláber, þessi holla og næringarríka náttúruafurð sem vex villt allt í kringum Súðavík og eru einmitt best og mest á þessum tíma. Gestir hátíðarinnar eru hvattir til að tína sem mest af allskonar berjum og eru ýmsir viðburðir í boði til að hressa upp á sál og líkama milli berjatínsluferða.  Ætlunin er að gera bláberjadagana að árlegum viðburði í Súðavík og hvetja fólk til að skemmta sér saman, tína ber og njóta þess besta sem náttúran hefur upp á að bjóða.

Skipulagning er í höndum Eggert Nielsen  og framkvæmdin er framlag allra bæjarbúa sem bláberi geta valdið.

Viðburðir fara fram til skiptis í innri og ytri byggðinni: Raggagarði, Ömmu Habbý, Melrakkasetri og Jóni Indíafara. Hægt er að hoppa upp í bláberjalestina eða ganga/hjóla á milli svæða. Skráningar í hlaup, berjatínslukort og aðrar upplýsingar eru í Melrakkasetri Íslands í Súðavík.

Á föstudagskvöldið verður ókeypis tónlistarflutningur. Spilað verður á þremur stöðum í bænum: Jóni Indíafara, Melrakkasetri og Ömmu Habbý og gengur bláberjalestin á milli. Tónleikarnir hefjast klukkan átta og standa yfir til miðnættis. Eftir það verður opinn bar á Ömmu Habbý og Jóni Indíafara til kl. 03.

Á laugardag verða haldin fróðleg berjaerindi í Melrakkasetrinu og þar fer fram kynningafundur um stofnun Berjasamlags.

Einnig verður keppni í frumlegum nýjungum í bláberjaréttum í Raggagarði - ath að skila þarf réttunum í Samkomuhúsið milli 13 og 14.30 og svo er allt smakkað og dæmt eftir kúnstarinnar reglum. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir frumlegt bakkelsi og fleira matarkyns sem inniheldur bláber. Á eftir verður svokallað „pottlok" en þá borðum við allann góða matinn og kökurnar ásamt öðru góðgæti sem gestir koma með og leggja fram á opið hlaðborð.

Flóamarkaður, Handverk og ýmsar bláberjaafurðir verða til sölu á markaðstorgi við Samkomuhúsið. Í fyrsta sinn á Íslandi verður keppt í bláberjaböku-áti, berjabláma-broskeppni og svokallaðri fyllukeppni í Melrakkasetrinu. Einnig verða ýmsir kappleikir á fótboltavellinum. Boðið er upp á andlitsmálun í Melrakkasetrinu og þar verður listasýning á vatnslitaverkum Guðrúnar Ingibjartsdóttur en hún hefur einnig útbúið falleg kort með bláberjum sem seld eru á setrinu.

Allir sem bláberi geta valdið taka þátt og verður þorpið skreytt  hátt og lágt. Veitingastaðirnir Jón Indíafari og Amma Habbý bjóða upp á bláberjatengdan matseðil og í Melrakkasetrinu verður bláberjasúpa, bláberjamöffins, bláberjavöfflur og bláberja-skyrdrykkur (boozt). Opinn bar með lifandi tónlist verður á þremur stöðum í bænum og sannkölluð hátíðarstemning.

Fyrir hlaupagarpa verður boðið upp á bláberjahlaup á laugardeginum og eru þrár vegalengdir í boð: hálft maraþon, 10km og 3km. Skráning er á www.hlaup.is fram að hádegi á föstudag 26.8.
Bláberjatoppaferð með leiðsögn verður farin á Kofra (mæting kl. 9 við Álftaver). Bláberjagönguferð inn að Valagili (farið á egini vegum). Hafið endilega með ykkur berjaföturnar.

Hátíðinni lýkur með varðeldi og ball verður í Samkomuhúsinu á laugardagskvöldið. Þemað er SVEITABALL og dressið samkvæmt því.

Nánari upplýsingar og dagskrá á www.blaberjadagar.com og upplýsingaveita verður í Melrakkasetri - s. 456 4922

Vefumsjón