25.04.2008 - 09:25

Atferli refa

Nú í sumar mun fara af stað undirbúningsrannsókn á áhrifum ferðamanna á atferli refa á Hornströndum. Verkefnið er í umsjón Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík en Melrakkasetur Íslands tekur einnig þátt í verkefninu. Um er að ræða einn þátt í samstarfsverkefni með Selasetri Íslands (áhrif ferðamanna á atferli sela) og Rannsóknarsetri HÍ á Húsavík og Hvalamiðstöðinni á Húsavík (áhrif ferðamanna á atferli hvala). Þetta er ansi viðamikið verkefni og verður spennandi að sjá hverjar niðurstöðurnar verða.

Ráðinn verður einn háskólanemi fyrir hvern þátt verkefnisins og verður það Borgný Katrínardóttir, nemandi á þriðja ári í líffræði við Háskóla Íslands, sem kemur til með að fylgjast með atferli refanna á Hornströndum í sumar.

Þar sem ferðamannatíminn á Hornströndum er afar stuttur en einmitt á sama tíma og refirnir á svæðinu (ásamt öðrum dýrategundum) eru að koma upp afkvæmum sínum, er áhugavert að skoða hvort og þá hvaða áhrif umferð ferðamanna hefur á hegðun dýranna. Vitað er að sumir refir á Hornströndum verða mjög spakir og sníkja mat af ferðamönnum en ekki er alveg ljóst hvort þetta eru stök dýr eða hvort þessi dýr eru með yrðlinga á greni. Einnig verður athyglisvert að skoða hversu mikinn mat refirnir fá frá ferðamönnunum og hvort sú viðbótarfæða skiptir þá einhverju máli. Umsjón með verkefninu hefur Ester Rut Unnsteinsdóttir.

Vefumsjón