15.11.2011 - 22:34

Ársfundur The Wild North og smíðastarf

« 1 af 4 »
Í byrjun október var ársfundur The Wild North haldinn á Vestfjörðum. Byrjað var í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík þar sem þátttakendur kynntu starf sinna klasa það sem af er ársins. Marianne Rasmussen frá Húsavík er „lead partner" og naut hún aðstoðar Per Ivars frá Noregi við stjórn fundarins. Ekki komust allir félagar okkar á fundinn því veðrið var slæmt og færð spilltist snögglega. Hluti hópsins kom því sínum upplýsingum og kynningum áleiðis í gegnum síma og internet. Snæddur var hádegisverður í Einarshúsi og sáu Ragna og Jón Bjarni um að verta mannskapinn, einnig færðu þeir fundargestum kaffi inn á safnið. Starfsfólk Náttúrustofu Vestfjarða sá um að allt færi vel fram á fundarstað og hlýddu á erindin.

Næsta dag var starfsfundur og var hann haldinn í Melrakkasetrinu í Súðavík. Þangað mætti ráðgjafi og helsti sérfræðingur okkar í náttúrulífs-ferðamennsku, Deborah Benham. Farið var í ársskýrslu til Nora og Nata, stefnumótunarvinnu og fleira gagnlegt. Maria Danium sá um kaffiveitingar og í hádeginu var farið á Jón Indíafara þar sem Óskar galdraði fram kræsingar. Léttar veitingar voru svo í lokin enda alltaf notalegt að fá sér drykk í Rebbakaffi. Eggert Nielsen sá um að koma mannskapnum heilu og höldnu til Ísafjarðar. Þriðji fundardagurinn fór fram í Reykjavík en þeir sem „aldrei komust vestur" hittu þá fyrir félaga okkar frá Noregi (Ecofact (Ingve), Spindaj (Per Ivar & Sigrid) ásamt Deborah. Þarna voru semsé samankomnir félagar vorir „í hvölunum" frá Norðursiglingu og Eldingu ásamt félaga „í selunum" frá Selasetrinu og loks hægt að ljúka við ársfundinn. Hópurinn fór á fund Ferðamálastjóra til að kynna starfið og ræða málin en Ferðamálastofa fylgist grannt með því starfi sem unnið er hjá TWN hópnum. Við ætlum að gera verkefnið sýnilegra á komandi ári, nú flöggum við með fána The Wild North og göngum í merktum fatnaði. Verkefnið hefur verið að skoða útivistar og léttari fatnað sem hægt er að mæla með í okkar vinnu. Við fengum Goretex galla frá Zo-on sem reyndist ágætlega í kuldanum í Hornvík í vor og ekki verr í rigningunni í júlí. Við spröngum um í þægilegum létt jökkum frá Craftsport og svo fóru norðmenn með flíspeysur frá Craftsport og 66N norður í Tromsfylke þar sem þau munu prófa flíkurnar. Fánasmiðjan sá um prentun á fatnaðinum og fánunum og eru að þróa buff og fleira sem verður til sölu hjá þátttökuaðilum The Wild North næsta sumar. Kannski við prófum flíkur frá fleirum og gerum könnun á endingu og þoli gegn slagviðri og kulda enda er TWN norðurslóðaverkefni og öll störfum við á útnesjum, langt frá alfaraleið. Eftir að fundi lauk var farið í að tæma loft og kaffihús Eyrardalsbæjarins því nú verður haldið áfram með smíðarnar og lokið við klæðningu á lofti efri hæðar. Kaffihús og eldhús verða máluð og gengið verður frá ýmsu sem ekki var hægt að klára fyrir opnun. Það voru þær Oddný Bergsdóttir og Maria Danium sem sáu um að tæma og færa allt innvols inn í sýningarsalinn. Jón Ragnarsson, sem verið hefur refahirðir í haust, hjálpaði til með verkið og allt gekk þetta upp á mettíma. Við stefnum að því að koma með nýjungar á sýninguna með vorinu og það verður gaman þegar allt er orðið flott og fínt. Þar sem forstöðukonan var kölluð til starfa við Háskóla Íslands þetta misserið hefur Dagbjört Hjaltadóttir séð um að taka á móti gestum og Jón Ragnarsson sinnt refahirðingu. Við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framlag, það er ómetanlegt. Nú notum við tímann til að skipuleggja og endurbæta sýninguna og starfið næsta sumar en áætlað er að koma með nýjungar og viðburði næsta vor og vera með skemmtilega páskadagskrá að auki.   
Vefumsjón