26.01.2013 - 12:05

Áriđ framundan

Úlfar les úr
Úlfar les úr "Vaskir menn" í desember sl.
Árið fór rólega af stað í Melrakkasetrinu en áfram er opið samkvæmt samkomulagi. Langbest að hringja í s. 456 4922 ef menn vija koma í heimsókn. Hægt er að koma með tillögu að viðburði sem gaman væri að halda í setrinu og einnig er hægt að panta húsið fyrir veislur, fundi eða eitthvað slíkt.

Ester er stödd í Tromso í Noregi um þessar mundir en hefur fengið aðstoð frá baklandinu til að hægt sé að taka á móti gestum. Við höfum fengið góðar heimsóknir í vetur og gaman að sjá að fólk er á faraldsfæti á þessum árstíma. Tromso er jú miklu norðar og þar þykir ekki tiltökumál að vegir séu hálir, flugsamgöngur ótryggar eða að úti sé myrkur og kuldi.
Við á Vestfjörðum ættum að leggja aukna áherslu á að okkur finnst gott og gaman að vera hér á veturna ekki síður en á sumrin. Fallegir vetrardagar þegar sólin er farin að hækka á lofti í febrúar, mars og apríl eru með því besta sem hægt er að upplifa og endilega leyfa fleirum að njóta. Við tökum ofan fyrir þeim sem sinna vetrarferðamennsku hér heima, t.d. Heydal og Borea Adventures en Fossavatnsgangan og Aldrei fór ég suður hafa aldeilis sett vetrarferðamennsku á hærra plan. Við í Melrakkasetrinu erum ánægð með að hér í Súðavík skuli vera komið gistiheimili sem hægt verður að hafa opið að vetrarlagi. Það eru spennandi tímar framundan og vonandi getum við öll tekið höndum saman til að undirbúa komu fleiri ferðamanna í heimsókn á vetrum.  

Þetta árið verður starfsemi Melrakkaseturs ansi viðamikil ef allt gengur að óskum. Að venju hefur mikið borist að sjálfboðaliðaumsóknum og verið er að skipuleggja rannsóknir og önnur verkefni fyrir næsta sumar. Byrjað er að bóka í refaskoðunarferðir og svo er í bígerð að halda námskeið í dýralífs og náttúruljósmyndun. Vöktun refastofnsins og rannsóknir á veiddum refum mun halda áfram, í samstarfi við Náttúrufræðistofnun og Náttúrustofu Vestfjarða. Rannsóknir á Hornströndum verða með hefðbundnum hætti en í ár munum við byrja að safna saur til erfðagreiningar. Þetta er aðferð sem notuð hefur verið í Svíþjóð og Noregi þar sem tófan er í útrýmingarhættu og erfitt að ná í lífssýni.
 

Við höfum sótt um fjármagn til að geta staðið við aukin verkefni og ef allt gengur eftir verða bæði nemendur, vísindamenn og sjálfboðaliðar að vinna í Melrakkasetrinu þetta árið. Erlendir háskólar hafa sýnt áhuga á að senda nemendur á háskólastigi í verkefni hjá okkur og þegar er ákveðið að taka við einum slíkum.


Kaffihúsið og menningarloftið hafa einnig fengið aukin verkefni þar sem boðið verður upp á morgunmat næsta sumar auk þess sem tónleikar og listviðburðir hafa þegar verið ákveðnir. Brúðuleikhúsið okkar verður líklega efni í kvikmynd og svo eru viðræður við BBC í farteskinu, meira um það seinna ef af verður.
Í haust verður svo haldin alheims-ráðstefna um melrakka (e. Arctic Fox biology Conference) en hana sækja helstu sérfræðingar heims í málefnum tegundarinnar. Það verður fengur fyrir áhugasama að fá að hlýða á erindi um rannsóknir á tófum í öðrum löndum.

Verið er að taka saman efni í ársskýrslu fyrir starfið 2012 og lítur út sem 15.000 manns hafi heimsótt Melrakkasetrið frá opnun. Við erum að vonum stolt af því hversu hratt verkefnið okkar hefur vaxið. Sagt hefur verið frá Melrakkasetrinu í þættinum „Út um græna grundu" á RÚV og í haust var opnugrein í Morgunblaðinu.
Framundan er sjónvarpsþáttur á RÚV, á vegum Háskóla Íslands um rannsóknir á Hornströndum, svo verður Melrakkasetrið umfjöllunarefni í útvarpsviðtali við BBC broadcast þann 5. febrúar næstkomandi. Hægt er að hlusta á þáttinn á heimasíðunni þeirra: http://www.bbc.co.uk/programmes/b01qdvlk 

Melrakkasetrið er klárlega búið að festa sig í sessi sem skemmtileg blanda af rannsókna-, ferðamanna- og menningarverkefni. Við höldum ótrauð áfram og gerum okkar besta til að beina athygli fræðimanna og ferðamanna að Vestfjörðum sem besta staðnum til að sjá norrænt dýralíf og kynnast áhugaverðri menningu.
Vefumsjón