02.12.2010 - 09:57

Annar í ađventu

Næsta sunnudag er annar í aðventu og þá verður opið hjá okkur frá 14 - 18 eins og síðast. Boðið er upp á bakkelsi og drykki á sérstöku jólaverði, sjá matseðilinn okkar hér til hægri.

Það er yndislega huggulegt í gamla norska húsinu í Eyrardal. Síðasta sunnudag fengum að heyra hvernig jólin voru í þessu húsi í gamla daga og kökuilmurinn barst um húsið í takt við tóna jólatónlistarinnar. Á markaðnum voru einstaklega fallegir munir til sölu sem  myndu sóma sér vel í hverjum jólapakka, til dæmis úrval vandaðra skartgripa og listmuna eftir Maríu og Sveinbjörn frá Art Vest. Einnig voru „Kríurnar" með handverk til sölu, m.a. heklaða smáhluti á jólatré, prjónavörur, handmáluð kort og spil. Melrakkasetrið hefur einnig glæsilegan varning til sölu sem fæst ekki annarsstaðar, m.a. glerdiska með refasporum, silfurhálsmen með refahaus, fágætar bækur og fleira.  Einnig er hægt að skrá sig eða vini sína fyrir hlutafé í Melrakkasetrinu, viðkomandi fær þá spjald því til staðfestingar og verður þetta væntanlega vinsælasta jólagjöfin í ár !

Það kostar ekkert að fá söluborð hjá okkur, bara mæta kl. hálf tvö og ná sér í pláss - fyrstir koma fyrstir fá ... 

Von er á óvæntum gestum og lifandi tónlist, Rúna og Inga sjá um að allir verði saddir og sælir.  

Verið velkomin og njótum aðventunnar saman í Eyrardal.

Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans.
Því Drottin sjálfur soninn þá 
mun senda í líking manns.

(S. Muri/Þýddur úr norsku af Lilju Kristjánsdóttir frá
Brautarhóli) 

 

Vefumsjón