16.10.2013 - 14:51

Alţjóđlegri ráđstefnu um melrakkarannsóknir lokiđ.

Helgina 11.-13. október sl. fór fram alþjóðleg ráðstefna um líffræði melrakkans (e. arctic fox, lat. Vulpes lagopus) á Hótel Núpi í Dýrafirði. Er þetta í fjórða skiptið sem slík ráðstefna fer fram en hún er haldin á fjögurra ára fresti. Fjallað var um rannsóknir á melrakkanum frá ólíkum sjónarmiðum og ýmsum sviðum líffræðinnar. Á síðustu ráðstefnu sem haldin var í Svíþjóð árið 2009 var ákveðið að næsta ráðstefna færi fram á Íslandi árið 2013. Var þetta í fyrsta skipti sem ráðstefnan er haldin hér á landi  og var undirbúningur og framkvæmd ráðstefnunnar í höndum Melrakkaseturs Íslands í Súðavík. Þess má geta að þetta er fyrsta alþjóðlega vísindaráðstefnan sem haldin er á Vestfjörðum eftir því sem við best vitum.

Ráðstefnan var vel sótt af vísindamönnum frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi og Nýja Sjálandi auk Íslands. Haldnir voru 22 fyrirlestrar í fjórum flokkum, þ.e. samskipti við aðrar tegundir og menn, lífeðlisfræði og erfðafræði, verndun og stjórnun og stofnvistfræði. Einnig voru 8 veggspjöld með yfirliti yfir rannsóknarverkefni í sömu málaflokkum kynnt á ráðstefnunni. Starfsmenn Melrakkaseturs og Náttúrufræðistofnunar Íslands, þau Ester Rut Unnsteinsdóttir, Borgný Katrínardóttir og Hálfdán Helgi Helgason, kynntu helstu niðurstöður rannsókna sem setrið stendur fyrir og héldu tvö erindi í flokknum verndun og stjórnun ásamt því að kynna rannsóknir á tveimur veggspjöldum í flokknum „samskipti við aðrar tegundir“. Hægt er að kynna sér erindin og veggspjöldin á sýningu Melrakkasetursins, umfjöllunarefnið er m.a. afföll lamba í sumarhögum, ferðamenn og refir, rannsóknir á Hornströndum og refatollur fyrr og nú.

Minning Dr. Páls Hersteinssonar var heiðruð á síðasta degi ráðstefnunnar en 13. október er einmitt dánardagur hans. Til máls tóku kollegar frá Svíþjóð, Noregi og Íslandi en einnig voru bornar upp kveðjur frá erlendum og innlendum samstarfsaðilum. Var þetta falleg stund og mikilvæg fyrir okkur sem stóðum honum nærri.

Svo skemmtilega vildi til að þegar ráðstefnan stóð sem hæst bárust fréttir um að vísindatímaritið Polar Biology hefði einmitt samþykkt að birta grein um félagskerfi refa sem Melrakkasetrið á þátt í en meðal höfunda eru Anders Angerbjörn, Karin Norén, Bodil Elmhagen, Ester Rut Unnsteinsdóttir og Páll heitinn Hersteinsson. Þetta er önnur vísindagreinin sem Melrakkasetrið á þátt í og birtist á árinu.

Melrakkasetrið fékk einnig sérstaklega fallega sendingu frá listamanni frá Bandaríkjunum sem kallar sig Arielle Dreams. Hún hannaði gjafakort til minningar um Pál Hersteinsson og mun ágóði af sölu kortanna renna í minningarsjóð hans sem sagt er frá hér á síðunni.

Melrakkasetur Íslands þakkar öllum þeim sem mættu á ráðstefnuna fyrir komuna og sérstaklega þeim sem undirbjuggu og kynntu fyrir ráðstefnugestum þau verkefni sem þeir eru að vinna að.

Sérstakar þakkir fá Vesturferðir og Borea Adventures fyrir þeirra framlag við bókanir og skipulagningu ferða til og frá ráðstefnustað og meðan á ráðstefnunni stóð. Einnig fá staðarhaldarar á Hótel Núpi sérstakar þakkir fyrir góðar móttökur og góðan viðurgjörning.

Melrakkasetur Íslands vill einnig þakka Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Fjórðungssambandi Vestfirðinga fyrir þeirra aðkomu að ráðstefnunni. Súðavíkurhreppur, Ísafjarðarkaupstaður og Bolungarvíkurkaupstaður fá einnig þakkir fyrir þeirra framlög. 

Vefumsjón