17.05.2010 - 10:24

Ađalfundur Melrakkaseturs Íslands ehf

Aðalfundur Melrakkaseturs Íslands ehf var haldinn á veitingastaðnum Jóni Indíafara í Súðavík, laugardaginn 15. maí kl. 16.00.
Fundarsókn var góð en á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf auk tillögu um að auka hlutafé félagsins til að gefa fleirum kost á að eignast hlut í Melrakkasetrinu. Fundinum stjórnaði Elías Oddsson og fundarritari var Dagbjört Hjaltadóttir. Forstöðumaður fór yfir skýrslu stjórnar og reikninga og var hvorttveggja samþykkt samhljóða.
Kjör stjórnar fór þannig að stjórnin var endurkjörin en hana skipa: Barði Ingibjartsson, Böðvar Þórisson, Dagbjört Hjaltadóttir, Ester Rut Unnsteinsdóttir og Ómar Már Jónsson. Til vara er Elías Oddsson. Endurskoðandi var kjörinn Guðmundur Kjartansson hjá Endurskoðun Vestfjarða.
Nokkrir tóku til máls og kom það fram að mikið starf hafi verið unnið á skömmum tíma. Stjórnarformaður nefndi að fjárhags- og tímaáætlanir séu að standast þrátt fyrir breytingar í þjóðfélaginu, á áætlun hafi verið að opna setrið í júní 2010 og nú væri okkur að takast að ná því markmiði.
Á fundinum var samþykkt svohljóðandi ályktun: Aðalfundur Melrakkaseturs Íslands ehf telur mikilvægt að áfram verði unnið með- og samstarf eflt við stofnanir á sviði náttúrufræði um rannsóknir, miðlun og fræðslu um náttúru svæðisins. Tillagan var borin upp af Þorleifi Eiríkssyni, Náttúrustofu Vestfjarða.
Vefumsjón