07.10.2010 - 15:25

10.10.10. og 350.org

Á sunnudaginn, nánar tiltekið þann 10. október verður heilmikið um að vera á Ísafirði, á Sólheimum, í Reykjavík og á fjölmörgum öðrum stöðum í heiminum.

Viðburðurinn er á vegum 350.org sem eru alþjóðleg grasrótarsamtök sem vekja athygli á því sem hægt er að gera til að lágmarka losun kolefnissambanda og minnka hlutfallið niður í það sem væri æskilegt. Talan 350 hefur verið sett fram sem viðmið og er hún notuð til að vekja athygli á málstaðnum. Á öllum þeim stöðum (tæplega 200 lönd) þar sem verða viðburðir þann 10.10.10. er talan 350 mynduð með einhverjum hætti, oftast með því að raða fólki upp þannig að þau myndi töluna.

Island er með í fyrsta skipti og eru það nemendur í strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða sem standa fyrir því. Vinnuheiti íslenska verkefnisins heitir "Keep the Ice in Iceland"

Melrakkasetrið og Grunnskólanemendur í Súðavík ætla að mæta á Silfurtorgið á sunnudaginn og taka þátt í viðburðum dagsins. Borea adventures er styrktaraðili Melrakkasetursins í gegnum 1% for the planet. Heimildarmyndin "Arctic Fox heating up", sem ECOMEDIA framleiddi á þessu ári, verður frumsýnd í húsnæði Borea í hæstakaupstað í tilefni dagsins.

Við hvetjum alla til að vera með enda margt skemmtilegt í boði, til dæmis er hægt að læra að búa til sólarrafhlöðu úr pizzakassa og elda sér mat í honum með orku frá sólinni!

Dagskráin hefst á hádegi og stendur frameftir degi - boðið er upp á andlitsmálun, hjólakeppni og fleira fyrir börnin, ýmsir fyrirlestrar eru í boði yfir daginn svo verður frumsýnd heimildarmyndin "Future of hope" í Ísafjarðarbíói - aðgangur er ókeypis. Í lokin er svo "potluck" á Langa Manga þar sem menn geta komið með eitthvað matarkyns í púkkið og allir borða saman.
Dagskrá 10/10/10 á heimasíðunni 350.org og á Facebook

 

Vefumsjón